Vextirnir á ítölskum ríkisskuldabréfum til tíu ára hafa ekki verið lægri í tvö og hálft ár eða síðan í október árið 2010.
Ítölsk stjórnvöld seldu ríkisskuldabréf til tíu ára í morgun að upphæð þrír milljarðar evra. Vextirnir reyndust rúmlega 3,9% þegar upp var staðið. Til samanburðar má nefna að í svipuðu útboði í mars s.l. voru vextirnir tæplega 4,7%.
Í frétt um málið á vefsíðu börsen segir að ástæðan fyrir þessari lækkun á vöxtunum sé að dregið hafi úr pólitískri óvissu á Ítalíu í kjölfar þess að Giorgio Napolitano forseti landsins skipaði Enrico Letta forsætisráðherra en sá mun mynda samsteyptustjórn með stærstu vinstri og hægri flokkum landsins.
