Lífið

Björk og Megas höfð í öndvegi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jón Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda, býður upp á flotta tónleikaröð í Hörpu.
Jón Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda, býður upp á flotta tónleikaröð í Hörpu. fréttablaðið/daníel
„Við erum að fagna mjög góðu ári hjá okkur með magnaðri tónleikaröð sem ber nafnið Ammæli,“ segir Jón Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda, en félagið stendur fyrir tónleikaröð næstu helgi í Hörpu, í tilefni af þrjátíu ára afmæli sínu.

Tónleikaveislan stendur frá föstudegi til sunnudagskvölds, en þar verður farið um víðan völl.

„Á föstudagskvöldið kemur Stórsveit Reykjavíkur fram og flytur tónlist eftir meðlimi félagsins, eins og Eyþór Gunnarsson og Einar Scheving svo einhverjir séu nefndir,“ segir Jón.

Á laugardagskvöldið flytja fimmtán íslensk tónskáld og textahöfundar tónlist sína. Á meðal þeirra sem koma fram þá eru Pétur Ben, Sóley Stefánsdóttir, Þórunn Antonía og Elín Ey, ásamt fleirum.

„Á sunnudeginum verðum við með málþing um íslenska textagerð, sem stýrt verður af Katrínu Jakobsdóttur og Bjarka Karlssyni. Tónleikarnir á sunnudagskvöldið verða svo lokapunktur hátíðarinnar,“ bætir Jón við.

Að kvöldi sunnudags fara þriðju og síðustu tónleikarnir fram og verða lög og textar eftir Björk Guðmundsdóttur og Megas í öndvegi. Meðal flytjenda eru Ragnheiður Gröndal, Magga Stína og Björn Jörundur, ásamt fleiri listamönnum. „Stelpurnar syngja lög Megasar og strákarnir syngja lög Bjarkar,“ bætir Jón við að lokum.

FTT er félag sem berst fyrir réttindum hryntónlistarmanna og leggur metnað í að sinna félagsmönnum og efla íslenskt tónlistarlíf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.