Handbolti

Strákarnir hans Dags byrjuðu á góðum útisigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. Mynd/NordicPhotos/Bongarts
Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin unnu 34-32 útisigur á Frisch Auf Göppingen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en þetta var fyrsti leikur liðsins eftir HM-fríið.

Füchse Berlin tók öll völd á vellinum eftir leikhlé Dags Sigurðssonar í stöðunni 26-26 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Refirnir unnu næstu fimm mínútur 5-1 og gerðu út um leikinn.

Füchse Berlin var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 18-16 en Göppingen komst síðast yfir í leiknum í stöðunni 8-7. Füchse skoraði næstu fjögur mörk og var með frumkvæðið þar til að Göppingen tókst að jafna á lokasprettinum.

Rússinn Konstantin Igropulo var markahæstur hjá Füchse með sjö mörk en Pólverjinn Bartlomiej Jaszka bætti við sex mörkum.

Füchse Berlin hefur nú unnið þrjá deildarleiki í röð (2 síðustu fyrir HM) og er í 3. til 4. sæti deildarinnar ásamt Flensburg þremur stigum á eftir THW Kiel sem er í 2. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×