Viðskipti innlent

Hagnaður Landsbankans 8 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi

Rekstrarhagnaður Landsbankans nam 8,0 milljörðum króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi ársins 2013, samanborið við 7,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

Arðsemi eigin fjár á tímabilinu eftir skatta var 14,0% samanborið við 15,2% arðsemi á sama tíma á árinu 2012. Eiginfjárhlutfall bankans hefur aldrei verið hærra og nam það 26,6% í lok mars 2013 en var 22,1% á sama tíma á síðasta ári.

„Helstu tíðindi hjá bankanum að undanförnu er án efa uppgjör Landsbankans hf. við LBI hf. Með þessu uppgjöri náðist mikilsverður áfangi í uppbyggingu bankans og um leið varð breyting á eignarhaldi sem skilar sér í miklum ávinningi fyrir ríkissjóð,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri í tilkynningunni.

„Eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum hefur nú hækkað um tæplega 62 milljarða króna umfram fjármagnskostnað þegar litið er á bókfærða stöðu eigin fjár bankans í lok þriðja ársfjórðungs.“

Steinþór segir einnig að Landsbankinn hafi áfram styrkt sína stöðu á þessum fjórðungi, arðsemi eigin fjár er vel viðunandi, eiginfjár- og lausfjárhlutföll eru sterk í alþjóðlegum samanburði og síðast en ekki síst hefur tekist að lækka rekstrarkostnað bankans eins og stefnt hefur verið að. Bankinn greiðir nú arð í fyrsta sinn frá stofnun hans og stendur mjög vel undir þeirri greiðslu. Staða bankans er því traust og óvissuþáttum í rekstrinum fækkar jafnt og þétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×