Viðskipti innlent

Ísland brotlegt við EES-samning

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Áður en til málareksturs kom fyrir EFTA-dómstólnum boðuðu stjórnvöld hér að gripið yrði til nauðsynlegra lagabreytinga fyrir lok mars á þessu ári. Núna eru breytingar boðaðar á yfirstandandi þingi.
Áður en til málareksturs kom fyrir EFTA-dómstólnum boðuðu stjórnvöld hér að gripið yrði til nauðsynlegra lagabreytinga fyrir lok mars á þessu ári. Núna eru breytingar boðaðar á yfirstandandi þingi. Fréttablaðið/Anton
Ákvæði laga um tekjuskatt eru brotleg við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í dómi EFTA-dómstólsins sem birtur var í dag kemur fram að ákvæði 51. greinar laganna feli í sér að tekið sé með ólíkum hætti á skattlagningu við samruna hlutafélaga innanlands og þegar félög renna saman á milli landa.

Mismunurinn er sagður gera að verkum að landið uppfylli ekki skuldbindingar sínar samkvæmt  greinum 31 og 40 í Samningnum um evrópska efnahagssvæðið.

Fram kemur í dómnum að ekki sé um það deilt að Ísland hafi látið hjá líða að gera úrbætur á lögum sínum á þeim tíma sem leið frá því að ESA lagði fram rökstutt álit sitt um málið í nóvember í fyrra.

Í svari Íslands við rökstudda álitinu í janúarlok kemur fram lagafrumvarp væri í smíðum og koma ætti á úrbótum fyrir marslok á þessu ári. Málsástæðum ESA var ekki mótmælt fyrir dómi og breytingar boðaðar á lögum á yfirstandandi þingi.

Beiðni Íslands um að málaaðilar deildu kostnaði af málarekstrinum var hafnað og því ber Ísland eitt kostnaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×