Viðskipti innlent

Skráð atvinnuleysi í maí var 4,3%

Skráð atvinnuleysi í maí var 4,3%, en að meðaltali voru 7.515 atvinnulausir í maí og fækkaði atvinnulausum um 483 að meðaltali frá apríl eða um 0,6 prósentustig. Skráð atvinnuleysi að meðaltali frá janúar til maí 2013 var 5,1%.

Þetta kemur fram á vefsíðu Vinnumálastofnunnar. Þar segir að í maí fækkaði körlum um 395 að meðaltali en konum um 88 og var atvinnuleysið 3,8% meðal karla og 4,9% meðal kvenna. Atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 229 á höfuðborgarsvæðinu en um 254 að meðaltali á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 4,8% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 5,3% í apríl.

Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 3,5% og minnkaði úr 4,1% í apríl. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 6,5%. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra, 1,6 %.

Alls voru 7.837 manns atvinnulausir í lok maí. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 7.026.

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt er nú 4.212, fækkar um 226 frá apríl og eru um 54% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í maí. Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár samfellt var 2.236 í maílok, en 2.326 í apríllok og fækkar um 90 frá apríllokum.

Alls voru 1.298 á aldrinum 16-24 ára atvinnulausir í lok maí eða um 17% allra atvinnulausra í maí. Í lok maí 2012 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 1.544 og hefur því fækkað um 246 milli ára í þessum aldurshópi.

Alls voru 1.440 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok maí, þar af 810 Pólverjar eða um 56% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Flestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í gistingu – og veitingastarfsemi eða 205.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×