Viðskipti innlent

Deildu um ný gögn í Al Thani - aðalmeðferð verður ekki frestað

Magnús Halldórsson skrifar
Ragnar H. Hall hrl., lögmaður Ólafs Ólafssonar, sem er einn ákærðu í Al Thani-málinu.
Ragnar H. Hall hrl., lögmaður Ólafs Ólafssonar, sem er einn ákærðu í Al Thani-málinu.
Lögmaður Ólafs Ólafssonar, eins ákærða í Al Thani-málinu, segir að samningur Sheiks Al Thani við slitastjórn Kaupþings, um að hann hafi greitt upp allar skuldir sínar vegna hlutabréfakaupa í bankanum, sýni að málið allt sé byggt á sandi. Þessu mótmælir saksóknari, en hann lagði fram ný gögn í málinu í morgun.

Dómari í málinu, Pétur Guðgeirsson, hafnaði því nú síðdegis að fresta aðalmeðferð svo lögmenn ákærðu gætu farið yfir gögn sem lögð voru fram við fyrirtöku í morgun.

Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, lagði fram ný gögn í Al Thani málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, í því eru fjórir menn ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik, í tengslum við kaup Sheiks Mohammed Al Thani frá Qatar á fimm prósenta hlut í Kaupþingi, í september 2008.

Það eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tíu prósenta hlut í bankanum fyrir hrun hans.

Þeir neita allir sök í málinu.

„Við vorum að leggja fram tvenns konar gögn, annars vegar samning Sheiks Mohammed Al Thani við slitastjórn Kaupþings, um uppgjör á skuldum, og síðan endurrit af símtölum úr borðsímum í Lúxemborg, sem við fengum vegna rannsóknar á öðrum dómsmáli, en við mátum að ætti erindi inn í þetta mál."

Sp. blm. Eru þetta samtöl innbyrðis á milli ákærðu í málinu?

„Ég get ekki tjáð mig um það, en þetta eru samtöl starfsmanna í Kaupþingi í Lúxemborg."

Ákæra í málinu var þingfest í febrúar í fyrra, og hefur því verið að velkjast um í dómskerfinu í meira en ár núna, án þess að aðalmeðferð hefjist. Samkvæmt dagskrá mun hún hefjast 11. apríl nk.

Ragnar H. Hall lögmaður Ólafs Ólafssonar krafðist þess fyrir dómi í morgun að úrskurðað yrði sérstaklega um hvort tilefni væri til frestunar á aðalmeðferð málsins, vegna framlagningar nýrra gagna sem hann taldi að lögmenn ákærðu þyrftu að fá lengri tíma til þess að yfirfara, en dómari í málinu úrskurðaði nú síðdegis að lengri frestur yrði ekki gefinn.

„Samningur Sheiksins [Mohammed Al Thani innsk. blm], sem lagður var fram í morgun, hefur mikla þýðingu í málinu og grefur í raun endanlega undan málatilbúnaði ákæruvaldsins, að mínu mati, þar sem samningurinn sýnir að ekki var um nein sýndarviðskipti að ræða, þar sem milljarðar voru greiddir í fullnaðaruppgjöri til þrotabúsins vegna þessara viðskipta."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×