Viðskipti innlent

Kjarasamningar hafa áhrif á gjaldskrárhækkanir ríkisins

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ríkisstjórnin mun endurskoða gjaldskrárhækkanir.
Ríkisstjórnin mun endurskoða gjaldskrárhækkanir. Mynd/Stefán
Allar gjaldskrárhækkanir ríkisins sem taka gildi um áramótin gætu lækkað samkvæmt heimildum Vísis frá fjármálaráðuneytinu.

Ríkið mun hækka vörugjald á bensíni og olíugjald á díselolíu um þrjú prósent um áramótin. Þá mun áfengis- og tóbaksgjald einnig hækka um þrjú prósent, vegabréf um tvö þúsund krónur og útvarpsgjaldið hækkar, sóknargjöld og innritunargjald í ríkisháskóla.

Í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í tengslum við niðurstöðu kjaraviðræðna lýsti hún því yfir að hún myndi endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif sem af þeim leiði verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands.

Þær upplýsingar bárust frá fjármálaráðuneytinu að hætt verði við einhverjar þeirra gjaldskrárhækkana sem boðaðar hafa verið um áramótin eða dregið úr þeim ef kjarasamningarnir verða samþykktir.

Óljóst er með hvaða hætti staðið verður við loforðin sem gefin voru í kjaraviðræðunum, en samkvæmt fjármálaráðuneytinu er til skoðunar hvort farið verði í flatan niðurskurð á gjaldskrám eða hvort sérstakir liðir sem vega þungt, eins og til að mynda bensín- og áfengisgjöld, verði skornir niður sérstaklega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×