Viðskipti innlent

Þyngstu dómar í sögunni - Sakborningar mættu ekki

Stefán Árni Pálsson skrifar
Verjendur sakborninga við dómsuppkvaðninguna í dag.
Verjendur sakborninga við dómsuppkvaðninguna í dag. Mynd/GVA
Dómur var kveðinn upp í Al-Thani málinu í Héraðsdómi í Reykjavík í dag en sakborningarnir fengu allir þunga dóma.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, fékk fimm og hálfs árs fangelsisdóm til frádráttar við gæsluvarðhald.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, fékk fimm ára dóm. Ólafur Ólafsson, fjárfestir, fékk þriggja og hálfs árs dóm og Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg fékk síðan þriggja ára fangelsisdóm, til frádráttar við gæsluvarðhald, en allir dómarnir eru óskilorðsbundnir.

Saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Hreiðari Má undir rekstri Al-Thani málsins. Þá fór hann einnig fram á sex ára fangelsi yfir Sigurði og fjögurra ára fangelsi yfir Magnúsi og Ólafi. Sakborningar fengu því nánast hámarks refsingu.

Verjendur vildu ekki tjá sig við blaðamann Vísis þegar eftir því var leitað og enginn af sakborningunum mættu í dómsuppkvaðningu. Dómurinn yfir Hreiðari Má Sigurðssyni og Sigurði Einarssyni eru þyngstu dómar í efnahagsbrotamáli í sögu Íslands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×