Viðskipti innlent

Niðurstaða kjarasamninga mun skipta miklu máli

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/GVA
Hagfræðideild Landsbankans segir að niðurstaða komandi kjarasamninga muni skipta miklu máli fyrir þjóðarbúið og verðbólgu á Íslandi.

„Komandi kjarasamningar eru einn af þeim óvissuþáttum sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir og mun niðurstaða þeirra skipta miklu,“ segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Í síðustu yfirlýsingum sínum hefur peningastefnunefnd Seðlabankans vikið að kjarasamningum og ítrekað að ef launahækkanir verði umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans verði nefndin að hækka vexti bankans í kjölfarið.

„Að sama skapi hefur nefndin lýst því yfir að verði launahækkanir í samræmi við verðbólgumarkmið muni verðbólga að öðru óbreyttu hjaðna hraðar en gert er ráð fyrir í spám bankans og vextir verði þar með lægri en ella.“

Því sé augljóst af yfirlýsingum peningastefnunefndar að hún telur niðurstöðu kjarasamninga skipta verulega miklu fyrir stöðugleika.

Í Hagsjá segir ennfremur að hér á landi sé nánast óhugsandi að gera kjarasamninga til langs tíma án endurskoðunar- eða uppsagnarákvæða. „Síðasti kjarasamningur var í rauninni þrír skammtímasamningar sem giltu til eins árs eða skemur. Launahækkun er jafnan sett inn í upphafi nýs gildistíma og er ætlað að vera gulrót til þess að letja menn til uppsagnar.“

Því næst er farið yfir sögu síðustu kjarasamninga og að staðan í dag sé hvorki ný né óvenjuleg eða slæm. „Lykilspurningin snýr greinilega að hækkun lægstu launa sem mikill þungi hefur verið lagður á. Af hálfu atvinnurekenda er bent á að kostnaðartilefni slíkra hækkana geti verið mikið sem muni auka verðbólgu.“

Verkalýðsfélögin benda á að ekki sé sanngjarnt að samningsbundin hækkun sé lág þannig að stórum hluta launaákvörðunarvalds sé vísað í einhliða ákvarðanir launagreiðenda í launaskrið.

„Tíminn er hins vegar skammur og þess vegna ekki líklegt að samningar takist á þessu ári. Verulegu máli skiptir að kjarasamningar náist án átaka þar sem staða efnahagsmála er viðkvæm.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×