Viðskipti innlent

Icelandair kærir niðurstöðu ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar

Samúel Karl Ólason skrifar
Ríkisskattstjóri hefur úrskurðað um að gjaldfærður fjármagnskostnaður gjaldárin 2008-2012 verði lækkaður með vísan til dóms Hæstaréttar í máli Toyota á Íslandi ehf. gegn íslenska ríkinu, nr. 555/2012 frá 28. febrúar. Yfirfæranlegt tap Icelandair minnkar um allt að 6,4 milljarða króna við úrskurðinn.

Ágreiningurinn í því máli snerist um það hvort að vaxtagjöld sem til féllu vegna láns sem Bergey ehf. tók til að fjármagna kaup á hlutabréfum í P. Samúelssyni hf. teldust til rekstrarkostnaðar og væru þannig frádráttarbær frá skattskyldum tekjum síðarnefnda félagsins eftir að það hafði yfirtekið hið fyrrnefnda í gegnum samruna.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að yfirfæranlegt tap Icelandair Group hf. minnki við þetta um allt að 6,4 milljarða króna og ef málið tapast að fullu fyrir dómstólum þá getur eigið fé félagsins lækkað um allt að 1,3 milljarða króna.

Stjórnendur Icelandair Group hf. eru ósammála niðurstöðu Ríkisskattstjóra og telja málin ekki vera sambærileg. Icelandair mun kæra úrskurðinn til yfirskattanefndar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×