Viðskipti innlent

Gengi krónunnar lækkar gagnvart evru

Samúel Karl Ólason skrifar
Krónan hefur fallið um 3,1% gagnvart evru.
Krónan hefur fallið um 3,1% gagnvart evru. Mynd/Getty Images
Gengi krónunnar hefur fallið gagnvart evrunni um 3,1% en á sama tíma hefur hún eingöngu lækkað um 0,6% gagnvart dollaranum. Að baki liggja tvær ástæður, en þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka. Annars vegar styrktist evran nokkuð gagnvart dollaranum sökum vandræða vegna skuldaþaks ríkissjóðs Bandaríkjanna og hagtölur þar voru lakari en búist hafði verið við.

Hin ástæðan er að krónan hafi lækkað gagnvart vegnu meðaltali mynta helstu viðskiptalanda Íslands. Samkvæmt greiningardeildinni má rekja það að einhverju marki til árstíðarsveiflu í gjaldeyrisstraumum vegna ferðamanna. „Innbyrðis hreyfingar í gengi evru á móti dollara vógu með öðrum orðum nánast að fullu á móti almennri veikingu krónunnar á tímabilinu, sem endurspeglast í tiltölulega stöðugu gengi dollarans gagnvart krónu." 



Að jafnaði hefur gengi krónunnar verið á svipuðu reiki í október í ár samanborið við október í fyrra. Þó endaði krónan 3,7% veikari í lok október í fyrra en nú í ár. Frá lok ágúst í fyrra tók gengi krónunnar hraða lækkunarhrinu sem ekki hefur endurtekið sig í sama mæli í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×