Innlent

Skaðvöldum fjölgað um 27 tegundir

Svavar Hávarðsson skrifar
Á greni eru einkum þrjár tegundir meindýra; grenisprotalús, köngulingur og sitkalús sem er lang skæðust.
Á greni eru einkum þrjár tegundir meindýra; grenisprotalús, köngulingur og sitkalús sem er lang skæðust. Mynd/Edda Oddsdóttir
Greinst hafa 27 nýjar tegundir skordýra frá byrjun tuttugustu aldar sem lifa á trjám og runnum. Allar þessar tegundir eru skaðvaldar en misjafnlega miklir þó. Ein þeirra, furulús, gekk svo nærri skógarfuru að tréð er svo gott sem útdautt á Íslandi.

Þetta kemur fram í nýrri grein í tímaritinu Icelandic Agricultural Sciences.

Guðmundur Halldórsson, rannsóknarstjóri hjá Landgræðslu ríkisins, játar því að landnám þessara dýra sé í beinu orsakasambandi við hlýnun; hraði landnáms og skordýrafaraldrar séu mestir á hlýskeiðum. Hann segir jafnframt að þetta sé áhyggjuefni þeirra sem ætla að nýta skóga og selja timburafurðir.

„Megnið af þessu veldur vaxtartapi og það skiptir auðvitað máli hvort tré er fullvaxið eftir 50 ár eða 80 ár. Það hafa verið að koma meindýr, og sjúkdómar, sem hafa veruleg áhrif á vöxt,“ segir Guðmundur og nefnir að einn stærsti skellurinn í trjárækt á Íslandi sé tilkoma furulúsar sem gerði vonir manna um útbreiðslu skógarfuru að engu, en á hana var sterkt veðjað um tíma.

Spurður hvort tilkoma 27 nýrra tegunda sé mikil fjölgun í ljósi þess að um rúma öld er að ræða segir Guðmundur að það verði að skoðast í því ljósi að aðeins 50 tegundir voru fyrir. Eins að nokkrar þessara tegunda séu mjög skaðlegar. Þær vaði líka uppi þar sem afræningjar og sjúkdómar fylgi þeim ekki eftir til nýrra heimahaga.

Hvað varðar séríslenskar tegundir, og þá birkið fyrst og síðast, þá er erfitt að segja hvort sérstök hætta steðjar að þeim. „Í öðrum löndum eru þó dæmi um að tegundir sem hafa verið lengi einangraðar, og sama hlýtur að gilda um Ísland, hafa farið illa þegar inn hafa komið sjúkdómar og meindýr. Þær tegundir eru berskjaldaðar má segja,“ segir Guðmundur.

Leið þessara nýju tegunda hingað til lands er væntanlega með innflutningi gróðurs í flestum tilfellum, og þess vegna er mjög erfitt að vinna gegn því að nýjar tegundir skordýra komi hér inn í landið. Guðmundur nefnir sem dæmi að bresk rannsókn sýni að 90% meindýra í skógum hafa komið með innflutningi.

„Eins ætti að gæta þess að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Ef menn eru að rækta tré af sömu arfgerð á stórum svæðum býður það þeirri hættu heim að höggið sé þungt þegar það kemur. Fjölbreytni eykur öryggið,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×