Viðskipti innlent

Áhugi hjá Bretum á sæstreng frá Íslandi

Nýr sæstengur var nýverið lagður í Vestmannaeyjum.
Nýr sæstengur var nýverið lagður í Vestmannaeyjum. Mynd/Landsnet
Sæstrengur til flutnings á raforku milli Íslands og Bretlands var eitt helsta umfjöllunarefni á ráðstefnu Bresks-íslenska verslunaráðsins sem haldin var í húsakynnum Bloomberg fréttaveitunnar í Lundúnum.

Á ráðstefnunni kom fram mikill áhugi á verkefninu í Bretlandi. Bloomberg greinir frá miklum áhuga fjárfesta á að koma að fjármögnum slíks sæstrengs. Á ráðstefnunni sagðist breski þingmaðurinn og fyrrum orkumálaráðherrann Charles Hendry sannfærður um að í Bretlandi væri pólitískur vilji til að skoða málið nánar.

Paul Johnson, forstöðumaður þróunar hjá National Grid (flutningsfyrirtæki raforku í Bretlandi), sagði frekari tengingar um sæstrengi hluta af þeirri lausn sem Bretland þurfi á sviði orkumála, í því skyni að efla orkuöryggi og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þá sagði hann stýranleika vatnsaflsins nákvæmlega það sem helst vantaði í breska kerfið, enda vindorkan t.d. hverfulli.

Johnson sagði sæstreng milli Íslands og Bretlands vera mjög kostnaðarsamt verkefni og að National Grid þyrfti að greina verkefnið mun betur áður en það myndi ákveða að taka þátt í slíkri fjárfestingu. Hann sagði fyrirtækið hins vegar hafa fulla trú á verkefninu, að það væri tæknilega framkvæmanlegt og ætti að geta reynst hagkvæmt fyrir alla aðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×