Viðskipti innlent

Landsbókasafn semur við Opin kerfi

F.v. Davíð Þór Kristjánsson, Edda G. Björgvinsdóttir, Bergsteinn Gunnarsson, Íris Kristjánsdóttir.
F.v. Davíð Þór Kristjánsson, Edda G. Björgvinsdóttir, Bergsteinn Gunnarsson, Íris Kristjánsdóttir. Mynd/Opin kerfli
Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur samið við Opin kerfi um kaup á tveimur nýjum háhraða diskastæðum til að hýsa afrit af öllu íslenska internetinu. Önnur diskastæðan verður hýst í fullkomnu gagnaveri Opinna kerfa sem staðsett er í Verne, Reykjanesbæ.



Landsbókasafn safnar öllu íslensku vefefni og geymir í varanlegri geymslu til framtíðar. Jafnframt hýsir Opin kerfi afrit af stafrænum  endurgerðum af efni safnsins, s.s. timarit.is og handrit.is.

„Við skoðuðum markaðinn með það fyrir augum að finna rétta lausn og góðan þjónustuaðila. Lausnin sem Opin kerfi kynntu fyrir okkur stóðst okkar kröfur og jafnvel gott betur en það. Við val okkur lögðum við mikla áherslu á öryggismál og að einfalda högun á okkar umhverfi og sú lausn sem Opin kerfi bauð okkur kom best út,“ segir Edda G. Björgvinsdóttir, fjármálastjóri og sviðsstjóri rekstrar hjá Landsbókasafni.

Mikilvægt verkefni

„Landsbókasafn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í því að varðveita afrit af íslensku vefefni. Þetta er hluti af sögu okkar Íslendinga og því mikilvægt að sú lausn sem við útvegum safninu sé með þeim hætti að fyllsta öryggis sé gætt og að gögnin séu ávallt aðgengileg. Opin kerfi útvegar safninu nýjar og hraðvirkar gagnastæður ásamt því að hýsa aðra gagnastæðuna í ISO27001 vottuðu gagnaveri Verne í Reykjanesbæ. Við erum mjög ánægð að fá að taka þátt í jafn mikilvægu verkefni og hlökkum til samstarfsins,“ segir Davíð Þór Kristjánsson, forstöðumaður lausnasölu hjá Opnum kerfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×