Viðskipti innlent

Bréf Novators í Actavis hafa hækkað í virði um rúma 30 milljarða

Samúel Karl Ólason skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson tekur hér í höndina á Paul Bisaro forstjóra Watson við sölu Actavis.
Björgólfur Thor Björgólfsson tekur hér í höndina á Paul Bisaro forstjóra Watson við sölu Actavis.
Hlutir eignarhaldsfélagsins Novator í Actavis hafa hækkað um tæp 45% á nokkrum mánuðum. Novator er að mestu í eigu Björgólfs Thor Björgólfssonar og félagið á um 5 milljónir hluta í Acatavis í gegnum félagið NDS. Frá þessu er sagt í Viðskiptablaðinu í dag.

Í uppgjöri Actavis fyrir þriðja ársfjórðung sem kynnt var síðasta þriðjudag kemur fram að tekjur félagsins jukust um 57% frá þriðja fjórðungi síðasta árs. Hagnaður á hlut hækkaði einnig úr 1,35 dali í 2,09 dali á hlut.

EBITDA hagnaður félagsins jókst um 61% á milli ára en hagnaður lækkaði um 14%. Þar spilar inn áhrif kaupa Actavis á Warner Chilcott. Lækkun um 14% var þó á hagnaði fyrir fjármagnsliði og eftir að uppgjörið var birt hækkuðu hlutabréf félagsins um 5,77%.

Novator eignaðist hlutina í Actavis vegna yfirtöku bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson Pharmaceuticals á Actavis og þá voru hlutirnir metnir á 60 milljarða króna, en eftir lokun markaða á þriðjudag var andvirðið yfir 92 milljörðum króna. Novator getur samkvæmt samkomulagi þó ekki selt hluti sína í Actavis fyrr en í maí 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×