Viðskipti innlent

Opnuðu dótabúð til að skapa sér atvinnu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Á myndinni má sjá kaupmanninn Guðrúnu í dótabúðinni sem hún rekur ásamt eiginmanni sínum Jóhanni. Jóhann segir að fólk eigi aldrei að hætta að leika sér.
Á myndinni má sjá kaupmanninn Guðrúnu í dótabúðinni sem hún rekur ásamt eiginmanni sínum Jóhanni. Jóhann segir að fólk eigi aldrei að hætta að leika sér.
„Það eru ekki margar svona litlar dótabúðir á höfuðborgarsvæðinu í dag,“ segir Jóhann Jóhannsson eigandi verslunarinnar Litla dótabúðin í Álfabakka í Mjódd.

Jóhann og eiginkona hans Guðrún Guðjónsdóttir opnuðu dótabúðina í lok október í fyrra og hafa því rekið búðina í eitt ár. Jóhann segir reksturinn hafa gengið vel og viðskiptin hafi verið upp á við allt þetta ár. Sérstaklega síðustu þrjá mánuði.

„Okkur fannst markaðurinn vera þannig að það væri hægt að bjóða fólki upp á vörur á betra verði og við reynum að gera það. Við erum með helling af minna þekktum vörumerkjum og þannig náum við að halda verðinu niðri. En við erum líka með þekkt merki,“ segir Jóhann.

„Við fórum af stað með þetta til þess að skapa okkur atvinnu, það var markmiðið,“ segir Jóhann sem hefur gaman af verslunarstarfinu.

Hann segir gaman að versla með leikföng. „Ég segi við alla sem vilja heyra að við eigum aldrei að hætta að leika okkur.“

Þau hjónin eiga tvö börn og þekkja dótaheiminn því vel fyrir. Hann segist finna fyrir því að fólki finnist gaman að koma til litla kaupmannsins og segi annað viðmót þar en í stóru verslununum. „Það er gott að fólk geti haft val, hérna getum við auðvitað boðið upp á persónulegri þjónustu en í stærri verslunum.“  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×