Viðskipti innlent

75 starfsmönnum sagt upp hjá Ístaki

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Forstjórinn segir uppsagnirnar afar þungbærar.
Forstjórinn segir uppsagnirnar afar þungbærar. Mynd/Anton
Verktakafyrirtækið Ístak segir upp um 75 starfsmönnum um þessi mánaðarmót. Fyritækið þurfti einnig að segja upp fólki um síðustu mánaðarmót þannig að alls hafa um 100 manns misst vinnuna hjá Ístaki. Viðskiptablaðið greinir frá þessu.

Samkvæmt Kolbeini Kolbeinssyni, forstjóra Ístak, er um að ræða um 50 starfsmenn sem starfa hér á landi en um 25 sem starfa í Noregi og í Grænlandi. Fyrir uppsagnirnar þessi mánaðarmót hafi verið um 560 starfsmenn hjá fyrirtækinu.

Kolbeinn segir þetta leggjast afskaplega illa í sig, en stór hluti þeirra starfsmanna sem sagt hefur verið upp hafi starfað lengi hjá fyrirtækinu. Þessar uppsagnir séu því mjög þungbærar.

Hann segir starfsmönnum alla jafna fækka á þessum árstíma en nú séu það mun fleiri og meginástæðan sú að Búðarhálsvirkjun sé að klárast og lítið sem taki við. Fyrirtækið sé að leita nýrra verkefna í Noregi þar sem verkefni séu fyrirsjáanleg á Íslandi á næstunni. Kolbeinn gerir ráð fyrir því að ná í fleiri verk í Noregi þannig að mögulegt verði að draga eitthvað af uppsögnunum til baka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×