Innlent

Sprautufíklar verst staddi sjúklingahópurinn á Íslandi

Samúel Karl Ólason skrifar
„Sprautufíklar eru jafnvel verst staddi sjúklingahópurinn í okkar samfélagi,“ segir Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði. Hann segir fíkniefnaneytendur á Íslandi í raun skiptast í tvo hópa. Í öðrum hópnum eru frístundaneytendur, að mestu ungt fólk, sem vex á endanum upp úr neyslunni og veldur í raun ekki miklum vandamálum í samfélaginu.

Í hinum hópnum eru einstaklingar sem misnota eiturlyf eins og sprautufíklar. „Þó fíknin fari ekki í manngreinarálit þá eru ákveðnir áhættuþættir  sem við sjáum hjá þeim hópi einstaklinga sem misnota fíkniefni eins og til dæmis sprautufíklar. Margir hafa glímt við mikin félagslegan vanda.“

„Þetta er hópur sem er mjög illa settur í íslensku samfélagi og þá getur fólk sagt; Bíddu, er það ekki vegna fíkniefnaneyslunnar? Jú, hún heldur hópnum kannski niðri, en það er ef til vill ekki rót vandans. Þetta er hópur sem er illa settur félagslega í okkar samfélagi. Niðurstaðan er sú að þetta er jafnvel verst setti hópur sjúklinga í okkar samfélagi.“

Þetta mun Helgi fjalla um í fyrirlestri í sem hefst klukkan níu í fyrramálið og er í stofu 201 í Odda. Fyrirlesturinn er hluti af Þjóðarspeglinum og ber heitið „Fíkniefnavandinn á Íslandi: Þróun neyslu, neyslumynstur og kostir í stefnumótun.“ Helgi mun einnig halda fyrirlestur með Jónas Orra Jónassyni sem heitir: „Þróun viðhorfa Íslendinga til afbrota: Samanburður frá 1989-2013.“

„Íslendingar telja neyslu fíkniefna vera alvarlegasta vandamál afbrota og hafa gert það alltaf í 25 ár. Reyndar gerðist það í fyrsta skipti, að á þessu ári fóru kynferðisbrot aðeins uppfyrir neyslu fíkniefna.“ Helgi segir að á öllum mælingum frá 1989 sé neysla fíkniefna númer eitt.

„Það kemur heim og saman við fréttaflutning og umræðu í samfélaginu um að vandinn sé mjög stór. Menn líta ekki bara til neyslunnar heldur hafa áhyggjur að fíkniefnaneysla sé ástæða afbrota. Að neysla sé miðpunktur afbrota landans á Íslandi.“ Helgi segir fólk nefna í miklu mæli að ástæða þess að fólk leiðist út í glæpi vera áfengis og fíkniefnaneyslu.

„Íslendingar sjá fíkniefni vera alvarlegasta vanda afbrota á Íslandi og þeir álíta að fíkniefnaneyslan sé rót að öðrum afbrotum eins og ofbeldi og auðgunarbrotum. Þetta sýnir hvað fíkniefni eru miðlæg í hugsun okkar um afbrot á Íslandi. Þannig að þessi tvö erindi falla mjög vel saman,“ segir Helgi.

Í máli sínu ætlar Helgi einnig að sýna fram á að á Íslandi hefur lengi verið mikill ótti við fíkniefni. „Ég sýni umfjöllun úr Morgunblaðinu frá 1979 þar sem notast er við stríðsfyrirsagnir á baksíðunni og í blaðinu er vegleg umfjöllun um hvað fíkniefnavandinn hafi þá verið stórt vandamál. Það væri sífellt alvarlegra og ungmenni deyi vegna fíkniefnaneyslu, að heróín sé komið á markaðinn og að yfir 4.000 séu á skrá lögreglunnar vegna fíkniefna.“

„Menn hafa örugglega orðið slegnir fyrir 34 árum síðan. Ég er að reyna að sýna hvað þetta nær langt aftur og hvað umfjöllunin sé dramatísk. Afstaða Íslendinga til fíkniefnavandans er að hann sé mikill og það er mikill ótti við fíkniefnin,“ segir Helgi.

Áhugasamir eru hvattir til að mæta á þennan áhugaverða fyrirlestur klukkan níu í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×