Viðskipti innlent

Íslandsbanki hagnaðist um 11,2 milljarða

Haraldur Guðmundsson skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir afkomu á öðrum ársfjórðungi í takt við áætlanir.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir afkomu á öðrum ársfjórðungi í takt við áætlanir.
Hagnaður Íslandsbanka á fyrri helmingi ársins var 11,2 milljarðar króna. Þar af var hagnaður á öðrum ársfjórðungi 6,6 milljarðar. Bankinn hagnaðist í fyrra um 11,6 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins og 6 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2012. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans um afkomu á öðrum ársfjórðungi 2013. 

Þar segir að heildareignir bankans voru 823 milljarðar króna við lok tímabilsins og útlán til viðskiptavina lækkuðu um 1% í 539 milljarða.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 17,4% á öðrum fjórðungnum samanborið við 18,6% á sama tímabili í fyrra. Sé horft til fyrri árshelmings var arðsemin 14,8% en 17,9% á sama tíma í fyrra. Lækkun á arðsemi skýrist að sögn bankans að mestu af hærra eigin fé, sem hefur hækkað um 15% á milli ára, eða frá 135 milljörðum króna í 156 milljarða króna við lok júní 2013.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir afkomu á öðrum ársfjórðungi í takt við áætlanir og jákvæð samlegðaráhrif vegna sameininga sem séu að koma fram á báðum hliðum rekstrarreikningsins.

„Við erum ánægð með afkomu fyrri hluta ársins. Við náðum að lækka kostnað um hálfan milljarð frá sama tíma í fyrra en lækkun kostnaðar hefur verið okkar aðalmarkmið á árinu. Jafnframt sáum við góðan vöxt í þóknunartekjum bankans,“ segir Birna Einarsdóttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×