Viðskipti innlent

Íslenski Expo-skálinn settur upp í Brim-húsinu

Guðmundur í Brim opnaði Expo-skálann um helgina.
Guðmundur í Brim opnaði Expo-skálann um helgina.
Íslenski Expo skálinn frá heimssýningunni í Shanghai 2010 og Bókamessunni í Frankfurt 2011 hefur verið settur upp í Brim-húsinu á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn.

Í skálanum er sýnd einstök 360 gráðu kvikmynd þar sem veggir og loft mynda sjónræna heild en myndin var framleidd af Sagafilm.

Myndin er fimmtán mínútur að lengd og sýnir Ísland í öllum sínum fjölbreytileika. Myndskeiðum frá náttúru og borg er varpað á fjórar hliðar og loft skálans sem saman mynda tening utan um gesti skálans.

Ný tækni, þróuð af Sagafilm var notuð við upptökur. Fjórar samtengdar tökuvélar festu landið á filmu, frá lofti, láði og legi og útkoman er kvikmyndaupplifun sem lætur engan ósnortinn. 

Markmið myndarinnar er að skapa einfalda og áhrifaríka undraveröld sem fær gesti til að nema staðar, draga djúpt að sér andann og upplifa Ísland í návígi. Veggir og loft mynda sjónræna, lifandi heild og mannlíf Íslands er speglað í sterkum tengslum við frumkrafta náttúrunnar.

Magnús Stefán
Tónlistin við kvikmyndina er eftir Hilmar Örn og er órjúfanlegur hluti af verkinu.

Yfir þrjár milljónir manna hafa nú þegar séð myndina og hófust sýningar í Brim-húsinu síðastliðna helgi. 

Eldgos í 360 gráðum.
Aðsóknin fór fram úr björtustu vonum og sáu hátt í þrjú hundruð manns myndina þessa fyrstu sýningarhelgi.

Þess má geta að skálinn var settur upp í Hörpu í fyrra og vakti gríðarlega lukku.

Skálinn er opinn frá 10 til 22 alla daga og er aðgangseyrir 1500 krónur. Myndin er sýnd á heila og hálfa tímanum.

Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu skálans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×