Viðskipti innlent

Munu nú bjóða fjárfestum að taka þátt í fjármögnun Magma-skuldabréfsins

Landsbréf munu á næstu vikum og mánuðum bjóða helstu viðskiptavinum sínum, sem einkum eru íslenskir stofnanafjárfestar og fagfjárfestar, að taka þátt í fjármögnun Magma-skuldabréfsins í gegnum fagfjárfestasjóð í rekstri Landsbréfa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum en borgarráð samþykkti í gær sölu á bréfinu.

Tilboði fagfjárfestasjóðs í rekstri Landsbréfa hf. um kaup á skuldabréfi sem gefið var út af Magma Energy Sweden A/B árið 2009 hefur verið tekið af öllum eigendum Orkuveitunnar.

Skuldabréfið var upphaflega hluti greiðslu fyrir hlut OR í HS Orku. Á bak við skuldabréfið stendur veð í hlutabréfum í HS Orku. Kaupverðið er 8,6 milljarðar króna.

Sala á bréfinu var umdeild á meðal borgarfulltrúa, meðal annars kom fram í gagnrýni Þorleifs Gunnlaugssonar að það væri varhugavert að samþykkja sölu á svo stórum hlut í HS Orku án þess að vita hver raunverulegur kaupandi væri.

Tilkynningu frá Landsbréfum má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Tilboði fagfjárfestasjóðs í rekstri Landsbréfa hf. um kaup á skuldabréfi sem gefið var út af Magma Energy Sweden A/B árið 2009 hefur verið tekið af öllum eigendum OR.

Skuldabréfið var upphaflega hluti greiðslu fyrir hlut OR í HS Orku. Á bak við skuldabréfið stendur veð í hlutabréfum í HS Orku. Kaupverðið er 8,6 milljarðar króna en um forsendur að öðru leyti vísast til tilkynningar Orkuveitu Reykjavíkur til Kauphallarinnar 11. júlí sl.

Landsbréf settu fyrst fram tilboð í skuldabréfið þann 15. febrúar 2013 og hafa viðræður við OR staðið yfir síðan.

Tilboðið er gert með fyrirvara um fjármögnun á kaupunum. Nú þegar allir eigendur OR hafa samþykkt kauptilboðið hefst söluferli á fjármögnun skuldabréfsins. Á næstu vikum og mánuðum munu Landsbréf bjóða helstu viðskiptavinum sínum, sem einkum eru íslenskir stofnanafjárfestar og fagfjárfestar, að taka þátt í fjármögnun skuldabréfsins í gegnum fagfjárfestasjóð í rekstri Landsbréfa.

Sigþór Jónsson framkvæmdastjóri Landsbréfa hf.: „Ég fagna því að kauptilboði Landsbréfa hafi verið tekið, en við teljum skuldabréfið spennandi fjárfestingakost. Landsbréf hafa á undanförnum mánuðum vaxið hratt og bjóða upp á fjölbreytt úrval fjárfestingakosta fyrir fjárfesta. Á síðustu mánuðum stofnaði Landsbréf til að mynda framtakssjóðina Horn II slhf. og ITF I slhf. sem er framtakssjóður sem fjárfestir í ferðaþjónustu og nýverið var tilkynnt um að Tryggingasjóður innstæðueigenda hafi valið Landsbréf sem eitt af þremur fjármálafyrirtækjum til að annast eignastýringu fyrir sjóðinn. Við teljum skuldabréf Magma áhugaverða viðbót við fjölbreytta flóru sjóða sem Landsbréf bjóða viðskiptavinum sínum.“

Um Landsbréf:

Landsbréf eru sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki sem annast rekstur verðbréfasjóða, fjárfestingasjóða og fagfjárfestasjóða. Félagið starfar sem rekstrarfélag samkvæmt starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu og hefur einnig leyfi til eignastýringar. Eignir í stýringu hjá Landsbréfum eru um 100 milljarðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×