Viðskipti innlent

Forstjórinn stökk úr flugvél til að kynna 4G þjónustuna

Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, kom í gær svífandi niður í fallhlíf við bæinn Jórvík rétt við Selfoss en mastur í eigu fyrirtækisins er við bæinn. Með því fagnaði hann þeim áfanga að 4G kerfi fyrirtækisins var formlega tekið í notkun. 

„Þetta er stór dagur í rekstri Vodafone. Við erum að taka stórt skref inn í framtíðina með því að opna fyrir 4G. Gefa fólki byltingakennda möguleika á að tengjast netinu á svæðum sem hafa verið illa tengd áður,“ sagði Ómar er niður var komið.

Þjónustunni var hleypt af stokkunum á stærstu sumarhúsasvæðum Suðurlands og Vesturlands. Sumarhúsanotendur í Skorradal og Grímsnesi eru meðal þeirra sem munu geta notið þjónustunnar, en 4G þjónustusvæði Vodafone mun svo stækka jafnt og þétt á komandi misserum. 

Í tilkynningu frá Vodafone kemur fram að í fyrstu verður áherslan á svæði þar sem hefðbundin netþjónusta er takmörkuð, enda sé þörfin  og eftirspurn eftir 4G þjónustunni mest þar. Sú aðferðafræði byggir á reynslu Vodafone í Evrópu, en þar hefur gefist vel að veita fyrst 4G netþjónustu á illa nettengdum svæðum.

Hægt er að kynna sér þjónustuna nánar á vef Vodafone, meðal annars á þessu korti sem sýnir nákvæmlega útbreiðslu 4G þjónustusvæðisins.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá frétt Stöðvar 2 um málið frá því í gærkvöldi. Hér fyrir neðan má síðan sjá myndband frá Vodafone þar sem fylgst er nánar með stökkinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×