Viðskipti innlent

Einstaklingar stærsti hópurinn sem leitar til umboðsmanns skuldara

Valur Grettisson skrifar
Ásta Sigrún Helgadóttir er umboðsmaður skuldara.
Ásta Sigrún Helgadóttir er umboðsmaður skuldara.
Tæplega fimm þúsund hafa sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og Komur fólks til ráðgjafaþjónustunnar frá stofnun embættisins árið 2010 eru orðnir fimmtán þúsund talsins.

Þetta er meðal þess sem kom fram í heimsókn Eyglóar Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem heimsótti embættið og kynnti sér starfsemina í gær.

Þar kom fram að töluvert hefur dregið úr eftirspurn eftir þjónustu embættisins frá því mest var árið 2011 , en þá sóttu tæplega 2300 um greiðsluaðlögun.

Af þeim 4.700 umsóknum sem hafa borist umboðsmanni um greiðsluaðlögun frá upphafi hafa 1.730 samningum verið lokið, 645 umsóknum hefur verið synjað og 587 mál verið afturkölluð.

Þegar fjölskylduhagir umsækjenda eru skoðaðir kemur í ljós að einstaklingar eru stærsti hópurinn sem leitar til umboðsmanns, þá einstæðir foreldrar og hjón með börn en barnlaus hjón þurfa síst á aðstoð eða ráðgjöf að halda.

Hlutur einstaklinga hefur farið vaxandi að undanförnu og einnig hefur orðið sú breyting að æ fleiri sem leita til umboðsmanns búa í leiguhúsnæði meðan fækkar í hópi þeirra sem búa í eigin húsnæði.

Ef litið er til aldurs fjölgar ungu fólki (að 36 ára aldri) sem leitar til umboðsmanns en fækkar í aldurshópnum 36 – 55 ára. Lítilsháttar fjölgun er í hópi þeirra sem eru 56 ára og eldri.

Meðalupphæð skulda hjá þeim sem leita til umboðsmanns skuldara hefur lækkað á liðnum árum. Árið 2010 var meðalupphæð skulda um 37,3 m.kr. en er nú um 24,5 m.kr. Sama máli gegnir um verðgildi eigna þar sem meðalverðmat var 16,6 m.kr. árið 2010 en er nú um 14,2 m.kr.

Það sem af er ári hafa borist 270 umsóknir um greiðsluaðlögun til umboðsmanns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×