Viðskipti innlent

Sala á farsímum tvöfaldast milli ára

Landsmenn kaupa farsíma sem aldrei fyrr. Í síðasta mánuði voru farsímar keyptir fyrir 69,1% hærri upphæð en í sama mánuði fyrir ári. Á sama tíma lækkaði verð á farsímum samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar um 16%,  sem felur í sér að raunvelta í sölu farsíma tvöfaldaðist á milli ára.

Þetta kemur fram í yfirliti frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að ástæðan fyrir þessum mikla vexti er að snjallsímar eru í auknum mæli að taka við af eldri gerðum farsíma.

Að sögn söluaðila komu á markað í síðasta mánuði tvær nýjar gerðir af snjallsímum sem höfðu í för með sér mikla endurnýjun. Jafnframt hinni hröðu tækniþróun á farsímamarkaði, sem felur meðal annars í sér að netnotkun fer í auknum mæli í gegnum símtækin, lækkar verð á eldri gerðum farsíma mjög hratt eða hætt er að selja þær. Ætla má að þessi mikla endurnýjun, þar sem eldri gerðir hverfa af markaði, torveldi nokkuð verðsamanburð á sambærilegum tækjum á milli ára, að því er segir í yfirlitinu.

Sala á mat og drykkjarvöru er nokkuð stöðug að raunvirði þegar horft er yfir lengra tímabil. Velta dagvöruverslana síðustu 12 mánaða var 0,9% meiri að raunvirði en 12 mánuði þar á undan. Á sama tímabili jókst raunvelta áfengis um 0,3%. Þá hafa ekki orðið miklar breytingar í sölu á öðrum sérvörum eins og fötum og skóm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×