Viðskipti innlent

Kjartan og Ármann kaupa hlut í Auði Capital

Fjárfestahópur undir forystu Ármanns Þorvaldssonar hefur keypt meginþorra eignarhluta Höllu Tómasdóttur í Auði Capital. Ásamt Ármanni eru þeir Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og Guðjón Reynisson, forstjóri leikfangaverslunarinnar Hamleys, hluti af fjárfestahópnum með Bretanum Ian Stewart.

Þetta kemur fram á vefsíðu Viðskiptablaðsins. Þar segir að Ármann sé fyrrverandi forstjóri breska bankans Kaupthing Singer & Friedlander, banka í eigu Kaupþings í Bretlandi.

Halla Tómasdóttir stofnaði sem kunnugt er Auði Capital árið 2008 ásamt Kristínu Pétursdóttur, nú stjórnarformanni en áður forstjóra félagsins. Halla átti um 15% hlut í félaginu í gegnum eignarhaldsfélag sitt HT Capital. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur hópurinn undir forystu Ármanns eignast um 10% hluta þess sem áður var í eigu Höllu. Aðrir hluthafar Auðar Capital hafa keypt 5% sem Halla átti áður, að því er segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×