Viðskipti innlent

Miklir möguleikar í rekstri gagnavera á Íslandi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Niðurstöður úttektarinnar eru afdráttarlausar en þar kemur skýrt fram að Ísland sé meðal heppilegustu staða veraldar þegar kemur að rekstri og viðhaldi á netþjónabúum.
Niðurstöður úttektarinnar eru afdráttarlausar en þar kemur skýrt fram að Ísland sé meðal heppilegustu staða veraldar þegar kemur að rekstri og viðhaldi á netþjónabúum. MYND/GETTY

Ísland er einn ákjósanlegasti staður veraldar þegar kemur að rekstri gagnavera. Þetta er niðurstaða skýrslu sem unnin var fyrir Landsvirkjun og kynnt á alþjóðlegri ráðstefnu orku- og tæknifyrirtækja á dögunum.

Skýrslan var unnin af breska greiningarfyrirtækinu BroadGroup og var kynnt formlega á alþjóðlegri ráðstefnu orku- og tæknifyrirækja í Nice í suður Frakklandi í vikunni.

Niðurstöður úttektarinnar eru afdráttarlausar. Þar kemur skýrt fram að Ísland sé meðal heppilegustu staða veraldar þegar kemur að rekstri og viðhaldi á netþjónabúum.

Einkar og sér í lagi er horft til hagstæðs orkuverðs enda er það stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri gagnavera. Þannig fullyrðir að BroadGroup að Ísland sé samkeppnishæft svo um munar þegar þjónustusamningar til tíu ára eða lengur eru annars vegar.

„Maður fann fyrir því þarna á ráðstefnunni í Nice að iðnaðurinn í heild sinni er farinn að líta á Ísland sem raunverulegan valkost fyrir þessa starfsemi," segir Ríkharður Ríkharðsson, forstöðumaður sölu- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjum. Hann sat ráðstefnuna í Suður-Frakklandi.

Hér má sjá samanburð á samanlögðum kostnarliðum við rekstur gagnavera milli landa. Eins og sjá má er kostnaðurinn lægstur á ÍslandiMYND OG HEIMILD/BROADGROUP

Og þetta er enginn smáiðnaður. Microsoft áætlar að um 50 milljörðum Bandaríkjadala sé árlega varið í rekstur netþjónabú. Þessi upphæð verður komin í 78 milljarða dollara árið 2020, eða það sem nemur 9.600 milljörðum íslenskra króna.

Það má segja að gagnaver séu áþreifanleg birtingarmynd hins stafræna efnahags. Þar hýsa fyrirtæki tölvukerfi sín í því augnamiði að flytja og geyma gögn.

Rekstur gagnavera á Íslandi hefur gefið góða raun. Tvö fyrirtæki hafa þegar reist gagnaver hér á landi, Verne Global og Advania Thor Data Center.

Á dögunum tilkynnti norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera að það myndi færa 60% starfsemi sinnar í gagnaver Advania Thor Data Center. Ríkharður segir þessa ákvörðun fyrirtækisins, sem þjónustar milljónir netnotenda, bera vitni um tækifæri Íslands.

„Að mati þeirra sem best þekkja til þá á Ísland raunverulegan möguleika í þessum geira,“segir Ríkharður. „Síðan er bara að vona að okkur takist að vinna vel úr þessum tækifærum, það er undir okkur komið.

„Inn í þetta spilast einnig vilji iðnaðarins til að horfa til nýstárlegra lausna og það hefur verið að gerast. Iðnaðurinn hefur verið að sýna okkur áhuga.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×