Handbolti

Ólafur valinn í úrvalslið Meistaradeildarinnar frá upphafi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson Mynd/NordicPhotos/Getty

Ólafur Stefánsson er besta hægri skyttan í 20 ára sögu Meistaradeildarinnar í handbolta en það var staðfest þegar íslenski landliðsmaðurinn og fjórfaldur meistari í Meistaradeildinni var valinn í úrvalsliðið Meistaradeildarinnar frá upphafi. Evrópska handknattleikssambandið sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem val liðsins er gert opinbert.

Liðið var valið í tilefni af því að það eru liðin tuttugu ár síðan að Meistaradeildin var sett á laggirnar. Átta leikmenn voru valdir í úrvalsliðið og þeir hafa unnið samtals 26 titla í Meistaradeildinni og alls 41 verðlaun á stórmótum með landsliðum sínum.

Leikmennirnir verða allir kallaðir fram á gólf í kringum úrslitahelgi Meistaradeildarinnar í ár sem fer fram 1. og 2. júní í Lanxess Arena í Köln í Þýskalandi. Ólafur verður ekki eini Íslendingurinn á staðnum því Alfreð Gíslason, Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson verða þar á ferðinni með þýska liðinu Kiel, Þórir Ólafsson með Kielce og svo dæma Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson í undanúrslitum.

Ólafur Stefánsson vann Meistaradeildina fjórum sinnum á ferlinum (Magdeburg 2002 og Ciudad Real 2006, 2008, 2009) og var í risastóru hlutverki í öllum úrslitaleikjunum.

Frakkar eiga tvo menn í liðinu en hinir sex leikmennirnir koma frá sex mismunandi þjóðum. Spænski línumaðurinn Andrei Xepkin er sá sigursælasti í 20 ára sögu Meistaradeildarinnar en hann varð sjö sinnum meistari (Barcelona 1996, 1997, 1998, 1999, 2000, 2005 og Kiel 2007) en sænski markvörðurinn Tomas Svensson fagnaði sex sinnum sigri í keppninni.

Úrvalslið meistaradeildarinnar 1993-2013:

Markvörður: Tomas Svensson, Svíþjóð

Vinstra horn: Stefan Kretzschmar, Þýskalandi

Vinstri skytta: Filip Jicha, Tékklandi

Leikstjórnandi: Jackson Richardson, Frakklandi

Hægri skytta: Ólafur Stefánsson, Íslandi

Hægra horn: Mirza Dzomba, Króatíu

Línumaður: Andrei Xepkin, Spáni

Varnarmaður: Didier Dinart, Frakklandi


Tengdar fréttir

Ólafur hafnaði danska landsliðinu

Ólafur Stefánsson staðfesti við danska fjölmiðla í dag að honum hafi boðist að taka við þjálfun danska karlalandsliðsins í handbolta.

Ólafur kvaddur í Laugardalshöllinni

Ólafur Stefánsson verður formlega kvaddur þegar Ísland mætir Rúmeníu í undankeppni EM 2014 þann 16. júní næstkomandi. Leikurinn fer fram í Laugardalshöllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×