Viðskipti innlent

Hönnunarkeppni um óveðurspeysu úr ull

Verkefnastjórn söfnunarinnar „Gengið til fjár“ efnir nú til hönnunarsamkeppni í samvinnu við Ístex og Landssamtök sauðfjárbænda um gerð peysu úr íslenskri ull þar sem þema samkeppninnar er óblíð veðrátta.

Í tilkynningu segir að þann 10. september 2012 skall á aftakaveður á Norður og Norðausturlandi með skelfilegum afleiðingum fyrir bændur og búfénað á svæðinu. Talið er að um tíu þúsund fjár hafi orðið úti.

Eftir veðuráhlaupið sannaðist þó hið fornkveðna hversu íslenska ullin er einstök; hlý og einangrandi, því langt fram á haust fannst sauðfé á lífi sem grafist hafði í fönn.

Í kjölfar óveðursins hrintu Landssamtök sauðfjárbænda af stað söfnunarátaki „Gengið til fjár“ vegna þess tjóns sem sauðfjárbændur á Norðurlandi urðu fyrir í óveðrinu. Fljótlega komu upp þær hugmyndir að efna til ritgerðasamkeppni um vitsmuni íslensku forystukindarinnar og hönnunarsamkeppni um peysu úr íslensku ullinni.

Hönnun peysunnar skal endurspegla þema samkeppninnar um óblíða veðráttu og skilyrði er sett að að peysan sé úr íslenskri ull, sama hvort notað er band eða lopi, sauðalitir eða aðrir litir.

Vegleg verðlaun eru í boði. Fyrstu verðlaun eru 100 þús. kr., flugmiði fyrir tvo með Flugfélagi Íslands sem gildir á áfangastaði félagsins innanlands og gisting og kvöldverður á Icelandair hóteli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×