Handbolti

Alfreð, Aron og Guðjón Valur þýskir meistarar með Kiel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Kiel tryggði sér í kvöld þýska meistaratitilinn í handbolta eftir sannfærandi sex marka sigur á heimavelli á móti Guðmundi Guðmundssyni og lærisveinum hans í Rhein-Neckar Löwen, 31-25. Kiel er með fimm stiga forskot á Löwen sem er í 2. sætinu en Löwen-liðið á aðeins tvo leiki eftir og getur því ekki náð Kiel. Það var ekki að sjá að þarna væru tvö efstu lið deildarinnar að mætast.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 3 mörk í leiknum og Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk. Guðjón Valur varð í kvöld þýskur meistari í fyrsta sinn á ferlinum en Aron var að vinna titilinn í þriðja sinn. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö mörk fyrir Löwen en Alexander Petersson komst ekki á blað.  

Kiel hefur unnið 27 af 31 leik sínum á leiktíðinni og þetta var sjötti deildarsigur liðsins í röð. Kiel vann einnig þýska bikarinn og er komið í úrslit í Meistaradeildinni. Það stefnir því í enn eitt frábært tímabil hjá Alfreð Gíslasyni og lærisveinum hans.

Alfreð var búinn að kveikja vel í sínum mönnum því Kiel gaf tóninn strax í byrjun og komst í 3-0 á fyrstu sex mínútunum. Kiel fór illa með Löwen-liðið allan hálfleikinn og bauð upp á kennslustund í handbolta. Kiel náði mest ellefu marka forskot í seinni hálfeik en Rhein-Neckar Löwen lagaði stöðuna á lokakaflanum.

Aron Pálmarsson skoraði fyrsta mark leiksins en Guðjón Valur Sigurðsson var með þrjú mörk í fyrri hálfleiknum sem Kiel vann 15-7. Aron bætti einu marki við í seinni hálfleik en þá fékk Guðjón Valur ekkert að spila. Marko Vujin var markahæstur hjá Kiel með sex mörk.

Kiel er að vinna titilinn annað árið og í fjórða sinn undir stjórn Alfreðs sem tók við liðinu sumarið 2008. Kiel hefur alls orðið þýskur meistari 18 sinnum þar af fimmtán sinnum frá árinu 1994.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×