Handbolti

Aron klæddi hundinn sinn upp í tilefni titilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hundurinn hans Arons í fullum skrúða.
Hundurinn hans Arons í fullum skrúða. Mynd/Fésbókarsíða Arons Pálmarssonar

Aron Pálmarsson varð Þýskalandsmeistari í þriðja sinn með Kiel í gærkvöldi þegar liðið vann sannfærandi 31-25 sigur á Rhein-Neckar Löwen og Kiel búið að tryggja sér titilinn þrátt fyrir að liðið eigi þrjá deildarleiki eftir.

Aron ákvað að halda upp á kvöldið með því að birta mynd af hundinum sínum á fésbókarsíðu sinni. Aron gerði meira en það því hann var búinn að klæða hann upp í búning Kiel sem var að sjálfsögðu merktur Aroni og með númerinu 24 á bakinu.

Forráðamenn Kiel vöktu athygli á uppátæki Arons í frétt á heimasíðu félagsins sem var annars uppfull af sigurgleði leikmanna Kiel frá því í gærkvöldi.

„Það er frábært að við séum orðnir meistarar í maí því núna getum við farið að einbeita okkur að Meistaradeildinni og að ná öðrum titli í hús í júní," sagði Aron Pálmarsson í viðtali við Kieler Nachrichten.

Aron skoraði tvö mörk í leiknum og hefur þar með skorað 72 deildarmörk á tímabilinu eða 2,8 mörk að meðaltali í leik. Hann varð einnig meistari með Kiel 2010 og 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×