Viðskipti innlent

ÍLS hefur ráðstafað tæplega 2.000 íbúðum í sinni eigu

Af þeim 2.416 íbúðum sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs hefur  1.984 þeirra  verið ráðstafað í útleigu, sölumeðferð eða annað. Þá bíða 432 íbúðir frekari greiningar en margar þeirra eru á svæðum þar sem nokkurt offramboð er af eignum til sölu og/eða leigu.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir apríl. Þar segir að íbúðum í eigu sjóðsins hafi fjölgað um 39 í mánuðinum. Af þessum rúmlega 2.400 íbúðum eru 1.047 íbúðir í leigu um land allt. Í sölumeðferð eru 860 íbúðir, annað hvort komnar í sölu eða unnið er að söluskráningu þeirra. 

Þá voru 285 íbúðir óíbúðarhæfar og eru þær flestar á byggingarstigi og því ekki fullbúnar en nokkur hluti þeirra er óíbúðarhæfur vegna aldurs og ástands.

Frá síðustu áramótun og til aprílloka hefur Íbúðalánasjóður selt 88 eignir, en þá voru 72 eignir með samþykkt kauptilboð. Á sama tíma í fyrra seldi sjóðurinn 38 eignir og hefur hann selt 663 eignir frá ársbyrjun 2008.

Sem fyrr segir eru 1.047 íbúðir í útleigu. Langflestar þeirra eru leigðar til fjölskyldna og einstaklinga sem dvöldu í eignunum þegar Íbúðalánasjóður eignaðist þær. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að leigja út eignir í almennri útleigu á þeim svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í apríl  námu 703 milljónum króna en þar af voru um 699 milljónir króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í apríl 2012 um 700 milljónum króna. Þetta er í fyrsta sinn í nær tvö ár þar sem útlánaupphæðin minnkar ekki töluvert milli ára.

Vanskil minnka áfram hjá sjóðnum en alls voru 9,1% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok apríl.  Skýrslan í heild er hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×