Viðskipti innlent

Vanskilum á útlánum heimilanna fækkar áfram

Hlutfall útlána heimilanna í vanskilum heldur áfram að lækka en á móti hefur vanskilum einstaklinga fjölgað.

Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki sem birt hefur verið á vefsíðu Seðlabankans. Þar segir að í lok febrúar  voru um 14% af heildarútlánum þriggja stærstu viðskiptabankanna og Íbúðalánasjóðs til heimila í vanskilum m.v. bókfært virði þegar öll lán viðskiptavinar teljast í vanskilum ef eitt lán er komið í vanskil. Hlutfallið var 18% í árslok 2011 og 20% í desember 2010.

Miðað við þetta var bókfærð fjárhæð lána í vanskilum 172 milljarðar kr. í lok febrúar sl., en var 206 milljarðar kr. 12 mánuðum áður. Það hefur því náðst árangur í lækkun vanskila.

Minni vanskil í lok febrúar s.l. samanborið við árslok 2010 stafa af því að hlutfall útlána í frystingu lækkar á umræddu tímabili úr 6% í 1% og hlutfall lána í fullnustumeðferð eða innheimtuferli lækkar úr 9% í um 7%. Á móti hækka aðrar vanefndir úr 4% í 5%, en hlutfall lána í endurskipulagningarferli er það sama og í árslok 2010 eða 1%.

Ein birtingarmynd þess að hlutfall útlána í fullnustumeðferð eða innheimtuferli hefur lækkað er aukning í nauðungarsölum, en t.d. var fjölgun á nauðungarsölum íbúðarhúsnæðis, árið 2011 voru þær 485 en 773 árið 2012.

Mikil lækkun á hlutfalli lána í frystingu er jákvæð þróun þar sem þessi lán eru í bið eftir frekari úrvinnslu. Lánafyrirtæki miðuðu á síðasta ári við að endurskipulagningu útlána einstaklinga yrði lokið fyrir síðustu áramót. Til dæmis féll greiðsluerfiðleikaúrræðið sértæk skuldaaðlögun niður um síðustu áramót. Líklegt er að endurskipulagning á útlánum heimilanna haldi þó enn áfram þar sem bókfært virði lána í vanskilum nemur enn rúmlega 170 milljörðum kr.

Um mitt síðasta ár leit út fyrir að fjöldi einstaklinga á vanskilaskrá væri að ná jafnvægi, en frá febrúar til ágúst var fjöldi á vanskilaskrá að jafnaði um 26.500 einstaklingar eða um 11% einstaklinga yfir 18 ára aldri. Með haustinu fór einstaklingum á vanskilaskrá hins vegar aftur að fjölga og hefur mánaðarleg fjölgun verið svipuð og á tímabilinu frá miðju ári 2011 og til febrúar 2012. Í lok febrúar 2013 voru einstaklingar á vanskilaskrá 27.423 talsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×