Viðskipti innlent

Sjávarútvegssýningin í Brussel hafin: Gerði besta samning ævinnar á Rommbarnum

Stærsta sjávarútvegssýning heimsins hefst í Brussel í dag og þar verður Indriði Ívarsson sölustjóri Ögurvíkur til staðar tuttugusta árið í röð.

Indriði segir að þessi sýning hafi öðlast meira vægi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki á síðustu árum. Menn skapa sér viðskiptasambönd á sýningunni og það sé nauðsynlegt að ná í nýja viðskiptavini núna þar sem margir af þeim gömlu eigi í vandræðum eða séu jafnvel komnir í þrot vegna kreppunnar í Evrópu.

Besti samningur sem Indriði hefur gert á þessum tuttugu árum var þó ekki á sýningunni sjálfri heldur á Rommbarnum í Brussel sem var vinsæll meðal íslensku ráðstefnugestanna hér á árum áður en þeir kölluðu eigenda barsins Kaptein Morgan.

Á þessum bar hitti Indriði eitt sinn mann frá Litháen sem átti stóran frystitogara. Samtali þeirra lauk með því að Indriði fékk tveggja ára samning hjá honum um að selja allar afurðir togarans sem stundaði þá karfaveiðar djúpt suður af Reykjaneshrygg.

Fyrir utan Ögurvík er fjöldi annarra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, og fyrirtækja sem veita útveginum þjónustu, á sýningunni eða ríflega 40 talsins. Þar af eru 36 á vegum Íslandsstofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×