Viðskipti innlent

Hagnaður Marel minnkar um meira en helming milli ára

Hagnaður Marel  eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi  ársins nam 5,7 milljónum evra eða um 870 milljónum króna. Þetta er meir en tvöfalt minni hagnaður en á sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam rúmlega 13 milljónum evra.

Í tilkynningu um uppgjörið til Kauphallarinnar segir  að mikilvægir sölusamningar voru m.a. gerðir í Brasilíu, Kína, Mið-Austurlöndum og Rússlandi. Markaðsaðstæður í Evrópu eru áfram krefjandi en batamerki sjást í Bandaríkjunum.  Því gerir Marel ráð fyrir hóflegum vexti á árinu að því gefnu að aðstæður á helstu mörkuðum batni á seinni hluta ársins.

„Ársfjórðungurinn var í samræmi við væntingar okkar. Tekjur voru í lægri kantinum sem endurspeglar tiltölulega lága stöðu pantanabókarinnar í upphafi árs. Umtalsverð aukning á nýjum pöntunum og meira líf á mörkuðum okkar á tímabilinu gefa þó tilefni til bjartsýni,“ segir Theo Hoen, forstjóri Marel í tilkynningunni.

„Enn sem fyrr mun Marel leggja ríka áherslu á hagræðingu og kostnaðaraðhald en við erum ekki að minnka umsvifin og erum í góðri stöðu til að auka sölu og markaðshlutdeild á næstunni. Eins og við tilkynntum í lok síðasta fjórðungs þá væntum við þess að ná 10-12% EBIT markmiði okkar á seinni hluta ársins 2013, að því gefnu að aðstæður á helstu mörkuðum okkar haldi áfram að batna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×