Viðskipti innlent

Svanhvít kjörin formaður Almannatengslafélagsins

Svanhvít Friðriksdóttir formaður Almannatengslafélagsins.
Svanhvít Friðriksdóttir formaður Almannatengslafélagsins.
Ný stjórn var kosin á aðalfundi Almannatengslafélags Íslands í dag, þriðjudaginn 23. apríl og var Svanhvít Friðriksdóttir kjörinn formaður félagsins. Svanhvít starfar sem upplýsingarfulltrúi WOW air og er með meistaragráðu í almannatengslum frá University of Westminster í Bretlandi. Eva Dögg Þorgeirsdóttir almannatengill og mastersnemi í HÍ var kjörin  varaformaður. Meðstjórnendur eru  Lovísa Lilliendahl almannatengill, G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, Berghildur Erla Bernharðsdóttir deildarstjóri kynningar og markaðsmála hjá Listasafni Reykjavíkur, Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu og Líney Inga Arnórsdóttir verkefnastjóri hjá Íslandsstofu.

„Tilgangur Almannatengslafélags Íslands er að mynda samstarfsvettvang fyrir þá sem starfa við almannatengsl á Íslandi, í því skyni að vinna að fræðslumálum er tengjast greininni og ýmsum hagsmunamálum. Almannatengsl eru ung starfsgrein og því mikilvægt að fólk sem vinnur á þessum vettvangi eigi sér fagfélag" segir Svanhvít Friðriksdóttir nýkjörinn formaður.

Almannatengslafélag Íslands var stofnað þann 27. september 2001 og vinna félagar þess margvísleg störf og eru starfsheitin mismunandi, t.d. upplýsingafulltrúi, almannatengill, ráðgjafi og svo framvegis. Sumir vinna á sérstökum almannatenglastofum, aðrir fyrir einstök fyrirtæki, félög eða stofnanir. Enn aðrir vinna sjálfstætt. Talið er að almannatenglar á Íslandi séu nú hátt í fjögur hundruð og hefur þeim fjölgað mikið á síðustu árum.



Almannatengsl eru stunduð víða í samfélaginu, meðal annars hjá hinu opinbera, fyrirtækjum, hagsmunasamtökum, félögum og svo ráðgjafafyrirtækjum sem sérhæfa sig í almannatengslum. Þau geta tekið á sig ólíka mynd, jafnvel innan sama fyrirtækisins. Almannatengsl felast til dæmis í upplýsingagjöf og margháttuðum samskiptum við almenning, fjölmiðla, hluthafa, fjárfesta, starfsmenn og aðra hópa, sem og ýmis konar ráðgjöf og stefnumótun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×