Viðskipti innlent

SA gagnrýnir Seðlabankann harðlega fyrir vaxtaákvarðanir

Samtök atvinnulífsins (SA) gagnrýna Seðlabanka Íslands harðlega í nýjum pistli á vefsíðu sinni. Þar segir að stýrivaxtaákvarðanir bankans á undanförnum 18 mánuðum hafi verið byggðar á kolröngum forsendum.

Á vefsíðunni segir: „Á síðasta einu og hálfu ári hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti sex sinnum, úr 4,25% í 6,0%, eða um 1,75%. Ákvarðanir peningastefnunefndar bankans byggja jafnan á spá bankans um stöðu og horfur í efnahagsmálum. Eins og fram kemur í meðfylgjandi yfirliti Samtaka atvinnulífsins hafa þessar vaxtaákvarðanir byggst á því að umtalsverður vöxtur væri í efnahagslífinu og kröftugur vöxtur í fjárfestingum, einkum fjárfestingum atvinnulífsins. Ákvarðanirnar hafa byggst á þeim áætlunum bankans að samanlagður hagvöxtur áranna 2012 og 2013 yrði 4,7%-5,5% og fjárfestingar ykjust samtals um 15-30%.

Annað hefur nú komið á daginn samkvæmt síðustu þjóðhagsspá Hagstofunnar þar sem samanlagður hagvöxtur áranna 2012 og 2013 er áætlaður 3,5%, í stað allt að 5,5%, og samanlagðar fjárfestingar áætlaðar aukast um 2% í stað 15-30%. Seðlabankinn hefur því tekið ákvarðanir á grundvelli áætlana um efnahagsbata sem ekki gekk eftir og var ætlað að vega gegn efnahagsþenslu sem ekki var fyrir hendi. Í því ljósi virðist einsýnt að bankinn lækki vexti sína á ný.

Þegar peningastefnunefnd Seðlabankans hóf vaxtahækkunarferlið á grundvelli áætlana um kröftugan efnahagsbata gagnrýndu Samtök atvinnulífsins þessar ákvarðanir og töldu efnahagsbatann ofmetinn. Þegar betur væri að gáð byggðist hann á tímabundnum aðgerðum stjórnvalda til að örva einkaneyslu og einungis fjórðung hagvaxtarins mætti rekja til atvinnuvegafjárfestinga sem væru í algjöru lágmarki. Einkaneyslan myndi því dragast saman á ný þegar hinum tímabundu aðgerðum lyki.

Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti síðast, í nóvember 2012, gagnrýndu Samtök atvinnulífsins þessa ákvörðun á þeim grundvelli að hún kæmi illa við skuldsett fyrirtæki sem sæju fram á erfiðan vetur, lækkun á afurðaverði og erfiðleika á helstu viðskiptasvæðum Íslands.

Á undanförnum mánuðum hefur komið æ betur í ljós að varnaðarorð Samtaka atvinnulífsins áttu rétt á sér. Forsendur sem Seðlabankinn gaf sér um efnahagsbata á árinu 2012 og 2013 hafa ekki staðist og þróun hagstærða hefur orðið hægari en þær væntingar sem bankinn setti fram fyrir árin 2012 og 2013.

Horfur í efnahags- og verðlagsmálum eru aðrar og lakari en vaxtahækkunarferli undanfarinna misseri byggði á. Samtök atvinnulífsins telja því fullt tilefni til þess að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir verulega á næstunni og atvinnulífið þannig hvatt til fjárfestinga, sem brýna nauðsyn ber til í ljósi þess að þær eru að líkindum minni en sem nemur endurnýjunarþörf atvinnulífsins. Við slíkt ástand verður ekki unað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×