Viðskipti innlent

Vill selja nær allt nema Byko

Krónan er meðal fyrirtækja í eigu Norvíkur.
Krónan er meðal fyrirtækja í eigu Norvíkur.
Viðræður standa yfir um sölu á nærri öllum innlendum eignum Norvikur til framtakssjóðs á vegum dótturfélags Arion banka að því er fram kom í kvöldfréttum RÚV.  Norvik er eignarhaldsfélag í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu hans. Hér á landi á félagið verslanir Krónunnar, Nóatúns, Intersport, Byko, Kjarval og Elko.

Félagið á einnig vöruhótelið Bakkann og fleiri eignir. Fram kom á RÚV að viðræður hafa staðið yfir að undanförnu um sölu á öllum innlendum eignum félagsins, nema Byko, til framtaksjóðsins SÍA II á vegum Stefnis, dótturfélags Arion banka.

Jón Helgi staðfesti við fréttastofu RÚV í dag að viðræðurnar standi yfir en vildi ekki nefna mögulegt kaupverð eignanna. Þá sagði hann ótímabært að ræða hvenær stefnt sé að því að undirrita samninga. Hann sagði fyrirhugaða sölu ekki hluta af skuldauppgjöri, heldur sé að koma að kynslóðaskiptum í fyrirtækinu.

Starfsfólki Norvikur hafa verið kynntar viðræðurnar. Hluthafar í framtakssjóðnum SÍA II eru um 30 talsins, einkum lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og fagfjárfestar að því er fram kemur á RÚV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×