Viðskipti innlent

Góður afgangur af rekstri Kópavogsbæjar

Rekstrarafgangur samstæðu Kópavogsbæjar var 186 milljónir króna í fyrra en áætlun gerði ráð fyrir 102 milljónum króna. Útkoman var því betri sem nemur 84 milljónum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Kópavogsbæjar fyrir síðasta ár.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að tekjur voru rúmlega 20,5 milljarðar króna á árinu en bein rekstrargjöld rúmlega 15,7 milljarðar króna. Þannig var hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir um 4,8 milljarðar króna.

Hagnaður vegna lóðaúthlutana á árinu 2012 var tæpar 800 milljónir króna en ekki hafði verið gert ráð fyrir lóðaúthlutunum í áætlun ársins. Til samanburðar var hagnaður af lóðaúthlutunum á árinu 2011 rétt rúmar 335 milljónir króna.

„Þessi afgangur verður þrátt fyrir gengistap, óhagstæða verðbólguþróun og hækkun  lífeyrisskuldbindinga. Gengistap erlendra lána var 445 milljónir króna og gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga var 209 milljónir umfram áætlun,“ segir í tilkynningunni.

„Ársreikningurinn sýnir bætta stöðu Kópavogsbæjar sem gefur góð fyrirheit um framhaldið. Mikill styrkur er fólginn í því að rekstraráætlanir málaflokka skuli standast og að á þær sé hægt að treysta. Hjá Kópavogsbæ starfar hæft fólk sem hefur lagst á árarnar til að ná settu marki. Einnig er mikilvægt að uppgreiðslu erlendra lána lýkur nánast á þessu ári og verður sá áhættuþáttur því óverulegur héðan í frá,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×