Viðskipti innlent

Hagnaður MP banka jókst um yfir 400 milljónir milli ára

Sigurður Atli Jónsson er forstjóri MP banka.
Sigurður Atli Jónsson er forstjóri MP banka.
465 milljóna króna hagnaður varð af rekstri MP banka á fyrsta ársfjórðungi ársins eftir skatta samanborið við 22 milljóna króna hagnað á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Hagnaður fyrir tekju- og bankaskatta nam 433 milljónum króna.

Í tilkynningu segir að fyrsti ársfjórðungur ársins sé besti ársfjórðungur í rekstri bankans frá upphafi.  Góð afkoma var af rekstri og námu hreinar rekstrartekjur 1.105 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi og hafa vaxið um 35% á milli ára. Aukning vaxta- og þóknanatekna nam um 26% á milli ára.

Hreinar vaxtatekjur voru 473 milljónir króna og hreinar þóknanatekjur 420 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2013. Hreinar fjárfestingatekjur voru 143 milljónir króna samanborið við 82 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2012. Hlutdeildarfélög skiluðu 14 milljóna króna hagnaði.

Um helmingur af afkomu skýrist af endurheimtum af sértækum niðurfærslum  en niðurfærslur voru jákvæðar um 221 milljón á fyrsta ársfjórðungi.

Heildareignir námu 63 milljörðum króna við lok fyrsta ársfjórðungs. Útlán jukust um 1,8 milljarða og námu alls 29,6 milljörðum króna. Innlán að meðtöldum peningamarkaðsinnlánum námu 47,9 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs.

Eiginfjárhlutfall bankans var 12% í lok fyrsta ársfjórðungs. Lögbundið eiginfjárhlutfall er 8% að lágmarki. Allt eigið fé bankans fellur undir eiginfjárþátt A.

„Það er afar ánægjulegt að geta skilað góðu uppgjöri í upphafi árs. Það gekk vel að vinna til baka hluta af því sem við höfum fært niður á móti eldra lánasafni, en um helmingur afkomunnar skýrist af því. Reglubundinn rekstur er jafnframt að skila mjög góðri afkomu. Við leggjum um þessar mundir allt kapp á að velja verkefni okkar og viðskiptavini vel og erum ánægð með gæði þess lánasafns sem verið er að byggja upp. Þá hefur okkur tekist vel að halda sterkri stöðu okkar á verðbréfamarkaði,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka í tilkynningunni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×