Viðskipti innlent

Century Aluminum rennir hýru auga til nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi

Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls á Grundartanga, rennir hýru auga til nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi að loknum kosningunum um helgina.

Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjör Century Aluminum yfir fyrsta ársfjórðung ársins. Í uppgjörin segir Michael Bless forstjóri félagsins að þar á bæ séu menn vongóðir um að ný ríkisstjórn á Íslandi muni gera þeim kleyft að koma álverinu í Helguvík í gagnið.

Bless segir að stjórn félagsins voni að ný ríkisstjórn muni veita Century Aluminum nauðsynlegan stuðning til þess að endurvekja framkvæmdir þeirra í Helguvík og koma þeim á fullan skrið að nýju en Bless kallar Helguvík aðlaðandi verkefni í tilkynningunni.

Fram kemur að samningaviðræður um orkukaup til fyrirhugaðs álvers í Helguvík standi enn yfir og gangi hægt. Hinsvegar kemur fram að Bless vonar að ný ríkisstjórn muni sjá til þess að nýjar raforkulínur að álverinu verði settar upp.

Hagnaður Century Aluminum á fyrsta ársfjórðungi ársins nam 8,3 milljónum dollara eða um 970 milljónum króna. Þetta er mun betri niðurstaða en á sama tímabili í fyrra þegar 4,4 milljóna dollara tap var á rekstrinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×