Viðskipti innlent

Frumtak kaupir hlut í Cintamani fyrir 320 milljónir

Frumtak hefur lokið kaupum á 30% hlut í Cintamani af Kristni Má Gunnarssyni eiganda fyrirtækisins. Verðið á hlutnum nam 320 milljónum króna.

Í tilkynningu segir að Cintamani sé íslenskt fyrirtæki sem hannar, framleiðir og selur útivistar­fatnað á alþjóðamarkaði. Fyrirtækið var stofnað fyrir 20 árum og hefur vaxið hratt allra síðustu ár.

„Það er okkur alltaf sérstök ánægja þegar við getum fjárfest í íslenskri hönnun," segir dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks í tilkynningunni. 

„Cintamani  byggir á sterkum grunni og hefur  skipað sér sérstakan stað í hugum margra Íslendinga. Félagið hefur á að skipa úrvals hönnuðum og hefur náð að byggja upp traust viðskiptasambönd bæði í sölu og framleiðslu og náð góðum árangri hérlendis í sölu til erlendra ferðamanna. Árangurinn er gott orðspor erlendis og í því felast mikil tækifæri, sem nú á að nýta."

Kristinn Már Gunnarsson, stjórnarformaður Cintamani segir að vöxtur Cintamani hefur verið hraður frá því að við hófum útflutning og sölu fyrir tveimur árum.

"Við höfum fengið afar góða svörun við vörumerkinu jafnt erlendis og á heimamarkaði. Aðkoma Frumtaks skapar svigrúm til að fullnýta þá möguleika sem blasa við á erlendum mörkuðum, enda er þar um fjárfrek verkefni að ræða sem tengjast markaðssetningu, opnun eigin verslana og auknu úrvali. Fjárfestingin gerir Cintamani kleift að vaxa í stökkum fremur en skrefum. Innkoma Frumtaks er mikil viðurkenning á því starfi sem unnið hefur verið hjá Cintamani ehf. undanfarin ár. Okkar mat er einnig að Frumtak sé um leið að setja sinn gæðastimpil á íslenska hönnun og þau miklu tækifæri sem felast í hugviti íslenskra hönnuða," segir Kristinn Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×