Viðskipti innlent

Milljón fyrir Íslendingaapp - keppni lýkur í dag

Samkeppni Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar um svokallað Íslendingaapp lýkur í dag með úrslitakeppni sem fram fer í sal Íslenskrar erfðagreiningar eftir hádegi.

Í keppninni er leitað eftir nýjum hugmyndum að notkun Íslendingabókar á snjallsímum. Tíu ár eru liðin frá því að Íslendingabók var opnuð á netinu og nota um 2500 manns Íslendingabók á hverjum degi.

Tólf lið skráðu sig til leiks í keppninni og sex þeirra skiluðu tillögum að appi fyrir tilskildan tíma, á miðnætti miðvikudaginn 10. apríl. Frá því í gær hefur almenningur geta kynnt sér lausnirnar sex á Facebook-síðu keppninnar og jafnframt valið þar bestu lausnina í skoðanakönnun.

Atkvæði almennings vega jafnt á móti áliti dómnefndar keppninnar í þeim þáttum sem kosið verður um í netkönnuninni.

Keppninni lýkur formlega kl. 13:00 í dag í sal Íslenskrar erfðagreiningar. Þar kynna hóparnir afrakstur vinnu sinnar fyrir dómnefnd og gestum. Að kynningum loknum getur dómnefnd komið með fyrirspurnir eða athugasemdir. Á meðan dómnefnd ræður ráðum sínum mun Ari Eldjárn skemmta gestum með uppistandi.

Hægt verður að taka þátt í vali á besta appinu á Facebook meðan á kynningunum stendur en gert er ráð fyrir að lokað verði fyrir kosninguna fimmtán mínútum eftir að síðasta lið hefur kynnt sína lausn. Allir eru velkomnir á kynningu keppenda en þeir sem ekki eiga heimangengt geta fylgst með kynningunum í beinni útsendingu á heimasíðu keppninnar, www.islendingaapp.is.

Í fyrstu verðlaun er ein milljón króna sem liðsmenn skipta með sér. Gert er ráð fyrir því að vinningslausnin verði nýtt sem viðbót fyrir Íslendingabók.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×