Viðskipti innlent

Útlán ÍLS hafa minnkað um meir en helming á þremur árum

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs hafa dregist verulega saman eða um yfir helming á síðustu þremur árum. Þetta kemur fram í nýjustu mánaðarskýrslu sjóðsins.

Við samanburð á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og ársins 2010 nemur samdrátturinn tæpum fjórum milljörðum króna.  Heildarútlán sjóðsins á fyrsta ársfjórðungi ársins 2010 námu 6,8 milljörðum kr. en voru komin niður í 2,9 milljarða kr. á sama tímabili í ár.

Ástæðuna fyrir þessum umskiptum má að stærstum hluta rekja til þess að bankarnir hafa lánað óverðtryggð íbúðalán í miklum mæli undanfarin ár.

Fram kemur í skýrslunni að í mars í ár námu heildarútlán Íbúðalánasjóð 844 milljónum króna en þar af voru um 743 milljónir króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í mars í fyrra um 957 milljónum króna.  Þannig minnkuðu almennu lánin um rúmlega 200 milljónir kr. milli ára í mars.

Jákvæðu fréttirnar í mánaðarskýrslunni eru að áfram dregur úr vanskilum einstaklinga hjá sjóðnum. Er mars níundi mánuðurinn í röð sem þessi þróun á sér stað en vanskilin minnkuðu um 0,2% frá fyrri mánuði og námu 4,3 milljörðum kr.

Hinsvegar jukust vanskil fyrirtækja hjá sjóðnum milli mánaða eða um 0,4% og námu um tveimur milljörðum kr. í mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×