Viðskipti innlent

Samkeppnishæfni Íslands jókst nokkuð í fyrra

Ísland var í 26. sæti lista IMD viðskiptaháskólans í Sviss hvað samkeppnishæfni varðar í fyrra og færist upp um fimm sæti frá árinu áður.

Þetta kemur fram í frétt frá Viðskiptaráði en ráðið hefur allt frá árinu 2002 tekið þátt í og haft umsjón með vefkönnun og gagnavinnslu fyrir IMD viðskiptaháskólann í Sviss vegna úttektar háskólans á samkeppnishæfni landa.

Úttektin hefur verið gerð frá því 1989 og í dag spannar könnunin um 330 mælikvarða á samkeppnishæfni þeirra 59 landa sem hún nær yfir.  Úttektin sýnir að Ísland hefur fallið í samkeppnishæfni frá árinu 2007 og náði botninum 2011 þegar það skipaði 31. sæti listans. Í síðustu úttekt skipaði Ísland 26. sæti listans sem m.a. má rekja til viðsnúnings í efnahagslífinu.

Ísland á þó langt í land til að ná fyrri stöðu ásamt því að standa hinum Norðurlöndunum mun aftar, en Svíþjóð skipar fimmta sæti listans, Noregur það áttunda og Danmörk þrettánda sætið.

Í fréttinni segir að úttekt IMD hefur mikið gildi fyrir þær þjóðir sem taka þátt í úttektinni til að sjá hvar þær standa og hvaða þætti þarf að bæta til auka samkeppnishæfni.

Niðurstöður úttektarinnar fyrir árið 2012 verða kynntar í lok maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×