Viðskipti innlent

Frestur kvenna til að sækja um til Svanna að renna út

Umsóknarfrestur um lánatryggingar úr Svanna – lánatryggingarsjóði kvenna rennur út á morgun, þriðjudaginn 16. apríl. Lánatryggingarsjóðurinn veitir lánatryggingar til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir Sjóðurinn er í samstarfi við Landsbankann sem veitir lán og helming ábyrgðar á móti sjóðnum.

Í tilkynningu segir að með lánafyrirgreiðslunni er mögulegt að tryggja fjármögnun á fyrstu stigum án persónulegrar áhættu. Hægt er að sækja um lánatryggingar allt árið um kring en úthlutað er tvisvar á ári, að vori og að hausti. Sótt er um rafrænt á vefnum svanni.is.

Eingöngu verkefni eða fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu kvenna og undir stjórn kvenna geta sótt um lánatryggingu. Einnig er gerð krafa um að í verkefninu felist nýsköpun eða nýnæmi að einhverju marki og að líkur séu verulegar á að verkefnið eða fyrirtækið leiði til aukinnar atvinnusköpunar kvenna.

Vakin er athygli á því að viðskiptaáætlun, fjárhags- og framkvæmdaáætlun og fjármögnunaráætlun þarf að fylgja umsókn. Einnig þarf að fylgja með áætlun um endurgreiðslu láns miðað við umbeðna lánsfjárhæð. Stjórn Svanna fer yfir og metur umsóknir í samvinnu og samráði við Landsbankann og er sameiginleg ákvörðun tekin um veitingar lánatrygginga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×