Viðskipti innlent

Páskarnir juku veltuna í dagvörum um 8% milli ára í mars

Velta í dagvöruverslun jókst um 8,0% á föstu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á dagvöru hefur hækkað um 6,1% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Þetta kemur fram í yfirliti frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Sala áfengis jókst um 11,8% í mars miðað við sama mánuð í fyrra.  Verð á áfengi var 1,6% hærra í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Fataverslun minnkaði um 4,2% í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á fötum hækkaði um 2,6% frá sama mánuði fyrir ári.

Velta skóverslunar jókst um 15,6% í mars á föstu verðlagi. Verð á skóm hefur lækkað um 1,5% frá mars í fyrra.

Velta húsgagnaverslana dróst saman um 4,1% í mars frá sama mánuði fyrir ári. Verð á húsgögnum var 5,4% hærra í mars síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta í sölu á tölvum í mars jókst um 20,9% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og farsímasala jókst um 31,3%. Aukning á sölu minni raftækja, svokallaðra brúnvara, nam 16,9% á föstu verðlagi og sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 5,3% á milli ára.

Helsta skýringin á aukinni verslun með mat og áfengi í mars síðastliðnum í samanburði við sama mánuð í fyrra er sú að páskarnir voru í mars á þessu ári en í apríl í fyrra. Töluverðar verðhækkanir hafa orðið á dagvörum að undanförnu á meðan dregið hefur úr hækkunum á áfengi. 

Fataverslun hefur ekki náð að rétta úr kútnum eftir hrun. Hið sama verður ekki sagt um skóverslun sem hefur heldur aukist. Á þremur fyrstu mánuðum ársins dróst fataverslun saman að raunvirði um 2,6% miðað við sama tímabil í fyrra en skóverslun jókst um 13,6% á sama tíma. Húsgagnaverslun dróst saman um 1,1% á þessu sama tímabili að raunvirði, að því er segir í yfirlitinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×