Viðskipti innlent

Ráðherra fær kynningu á Íbúðalánasjóðsskýrslu á morgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra mun að öllum líkindum fá kynningu á skýrslu starfshóps um Íbúðalánasjóð á morgun. Upphaflega átti starfshópurinn að skila skýrslu fyrir lok marsmánaðar en var veittur frestur til föstudagsins 12. apríl til þess að skila skýrslunni. Í skýrslunni verða reifaðar framtíðarhorfur í rekstri Íbúðalánasjóðs og framtíðarhlutverk sjóðsins.

Íbúðalánasjóður hefur átt í verulegum vandræðum síðustu ár. Ástæðan er ekki síst rakin til þess að heildarútlán hafa dregist verulega saman eða um yfir helming á síðustu þremur árum, samkvæmt nýjustu mánaðaskýrslu sjóðsins.

Við samanburð á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og ársins 2010 nemur samdrátturinn tæpum fjórum milljörðum króna.  Heildarútlán sjóðsins á fyrsta ársfjórðungi ársins 2010 námu 6,8 milljörðum króna en voru komin niður í 2,9 milljarða króna á sama tímabili í ár.

Efnislega er umrædd skýrsla tilbúin, en hún er nú í uppsetningu og yfirlestri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×