Viðskipti innlent

Skattamál ASÍ gegn ríkinu þingfest í dag

Í dag var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem ASÍ höfðar fyrir hönd allra félagsmanna sinna á hendur íslenska ríkinu. Þar er þess krafist að skattur á almennu lífeyrissjóðina, sem ákveðinn var með lögum í árslok 2011, verði dæmdur ólögmætur og andstæður stjórnarskrá.

Í tilkynningu segir að miðstjórn ASÍ hefur lagt á það höfuðáherslu að ekki verði gripið til skattlagningar á lífeyrisréttindi launafólks, þar sem ljóst sé að slík skattlagning muni þegar upp er staðið einungis lenda á þeim hluta vinnumarkaðarins sem ekki býr við bakábyrgð ríkis og sveitarfélaga á sínum réttindum. Það er afstaða ASÍ að slíkt sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands.

„Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi marglýst því yfir að þessi óréttláta skattlagning verði dregin til baka hefur ekki orðið af efndum. Það var því niðurstaða miðstjórnar Alþýðusambandsins að leita til dómstóla til að fá þennan skatt dæmdan sem brot á stjórnarskrá gagnvart félagsmönnum ASÍ,“ segir í tilkynningunni.

„Í málinu er byggt á því að álagning skattsins fari gegn jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár Íslands, 72. gr. hennar um verndum eignaréttar og skattalögum en ASÍ telur að þessi brot hafi ríkisstjórnin, fjármálaráðherra og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi  framið vitandi um þá ólögmætu mismunun sem í skattlagningunni felst.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×