Viðskipti innlent

Spáir minnstu verðbólgu í tvö ár eða 3% í apríl

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,1% í apríl frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna um tæpa prósentu, úr 3,9% í 3,0%. Hefur verðbólgan þá ekki verið minni í tvö ár.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að í kjölfarið geri greiningin ráð fyrir að verðbólga verði á svipuðu róli út árið, en aukist heldur á næsta ári samfara auknum umsvifum í hagkerfinu. Hagstofan birtir VNV fyrir apríl kl. 9:00 þann 29. apríl næstkomandi.

„Styrking krónu um ríflega 10% frá miðjum febrúarmánuði hefur breytt verðbólguhorfum verulega til skemmri tíma litið. Áhrif styrkingarinnar eru þegar tekin að koma fram í verði innfluttra vara og gerum við ráð fyrir að svo verði áfram á næstunni,“ segir í Morgunkorninu.

„Áhrifin eru hvað sterkust í eldsneytisverði, en þar bætist við talsverð verðlækkun á heimsmarkaði. Við gerum ráð fyrir 5% lækkun eldsneytisverðs í aprílmánuði frá mánuðinum á undan, sem hefur áhrif til 0,3% lækkunar VNV. Þá hafa bílaumboð sum hver lækkað verðskrár sínar talsvert á síðustu vikum...og merki eru um verðlækkun á ýmsum innfluttum vörum, allt frá matvælum til byggingarefnis. Styrkingin hefur einnig þau áhrif að innfluttar vor- og sumarvörur eru nú væntanlega keyptar inn á hagstæðara gengi en í fyrra. Má þar nefna að krónan var að jafnaði u.þ.b. 4% sterkari frá marsbyrjun til miðs aprílmánaðar á þessu ári en á sama tíma í fyrra.“

Þá segir að næstu mánuði mun áhrifa af styrkingu krónu halda áfram að gæta í VNV. „Við gerum raunar ráð fyrir að krónan víki ekki langt frá núverandi gildi fram á haustið, og að áhrif styrkingarinnar fjari því út þegar líður á árið,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×